Fjármálaráðherra hefur skipað Steinþór Haraldsson til að gegna embætti skattstjóra á Skattstofu Suðurlandsumdæmis frá 1. maí 2008 til fimm ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Steinþór lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1975. Að loknu námi réð hann sig til starfa hjá embætti ríkisskattstjóra þar sem hann hefur í gegnum árin m.a. gegnt stöðum sérfræðings, deildarstjóra, forstöðumanns um tíma og yfirlögfræðings.

Steinþór var settur skattstjóri á Skattstofu Suðurlandsumdæmis í júní 2007 og hefur gegnt því starfi síðan. Steinþór hefur mikla þekkingu og reynslu af skattarétti og skattframkvæmd. Hann hefur auk þess átt þátt í fjölmörgum breytingum á skattkerfinu, sinnt kennslu og ritstörfum á sviði skattamála, segir í tilkynningunni.

Alls bárust tvær umsóknir um starfið.