Steinþór Jónsson hótelstjóri á Hótel Keflavík, telur fulla ástæðu til að hefja markvissar aðgerðir til að markaðssetja Keflavíkurflugvöll betur fyrir erlend flugfélög en gert er í dag. "Nýir áfangastaðri er grundvallarforsenda til þess að auka ferðamannastraum til Íslands. Ný tækifæri í flugi byggjast þó talsvert á réttri tímasetningu og heppni en það gerist ekkert ef menn reyna ekkert að hafa sig eftir viðskiptunum," segir Steinþór í samtali við Viðskiptablaðið.

Sjálfur varð Steinþór frumkvöðull í flugmálum þegar hann fékk tvö erlend flugfélög til að fljúga reglulega til landsins á árunum 1995-2002. Hann segir mikilvægt að ekki séu settar hindranir á slík viðskipti með of hárri gjaldtöku á þjónustunni á Keflavíkurflugvelli.

„Ég held að talsvert skorti á að það séu einhverjir aðilar hér í því beinlínis að leita að tækifærum sem eru þarna úti. Það er alveg ljóst að það er gríðarlega mikil umferð yfir Atlantshafið sem í mörgum tilvikum þyrfti að millilenda. Það getur bæði átt við farþegaflug sem og vöruflutningaflug. Við erum hér með góðan flugvöll sem getur þjónað miklu meiru en hann gerir í dag, sérstaklega utan háannartíma."

Telur Steinþór einkum áhugavert að laða að flugfélög frá Bandaríkjunum og Kanada varðandi millilendingar vegna flugs á milli Ameríku og Rússlands eða annarra ríkja í Suður og Austur-Evrópu. Það opni um leið nýjar fluguleiðir fyrir Íslendinga.

Steinþór stóð fyrir því að fá kanadíska flugfélagið Canada 3000 til að hefja millilendingar á Keflavíkurflugvelli á leið þeirra frá Vancouver í Kanada til sjö borga í Evrópu. Kynnti Steinþór þessa hugmynd fyrir forsvarsmönnum félagsins árið 1994 og flugið hófst vorið 1995 með 16 lendingum í Keflavík á viku. Í kjölfar árásanna á tvíburaturnana í New York árið 2001 lognaðist félagið út af. Steinþór dó samt ekki ráðalaus heldur fékk hann kanadíska flugfélagið HMY Airways árið 2002 til að hafa viðdvöl hér á landi. Sú tilraun stóð þó stutt. Félagið sem fékk nafnið Harmony Airways árið 2004 varð undir í samkeppninni við Alaska Airlines og United Airlines og hætti rekstri 9. apríl 2007.

Nánar er sagt frá málinu í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. miðvikudag.