Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans áfrýjar dómi um níu mánaða fangelsi, þar af hálfu ári skilorðsbundið. Dómurinn var kveðinn upp í dag. Vísir greinir frá þessu. Í samtali við Vísi segir lögmaður Steinþórs, Lárentsínus Kristkjánsson, Steinþór ósáttan við dóminn og telji hann rangan. Óljóst er hvort ákæruvaldið áfrýi fyrir sitt leyti.

Steinþór var ákærður fyrir markaðsmisnotkun, fyrir að kynna kaup Imons á hlutabréfum í bankanum sem ruanveruleg viðskipti, en ákæruvaldið taldi að aðeins hefði verið um sýndarviðskipti að ræða. Hann var sakfelldur fyrir að hafa tilkynnt viðskiptin til Kauphallarinnar, þrátt fyrir vitneskju hans um að hin seldu hlutabréf kæmu frá eigin fjárfestingum Landsbankans og að til stæði að Landsbankinn fjármagnaði kaupin að fullu, án þess að staðfesting lægi fyrir um fjármögnunina. Hann sagðist hvorki hafa verið kunnugt um, né borin skylda til að afla sér vitneskju um hvernig staðið yrði að fjármögnun hlutabréfakaupanna. Hann sagði það ekki vera hlutverk verðbréfamiðlara að ganga úr skugga um slíkt.

Dómurinn féllst þó ekki á það og sagði að í starfi ákærða fælist að koma á viðskiptum með hlutabréf og tilkynna þau til Kauphallarinnar. Fram kemur í dómnum að hann hafi ekki getað dulist að upplýsingar um hvernig að viðskiptunum væri staðið gæti haft áhrif á mat aðila verðbréfamarkaðarins á verði hlutabréfa. Hann hagaði því starfi sínu á þann veg að misvísandi eða villandi upplýsingar um verðmæti hlutabréfa bærust ekki út á markaðinn.