„Það er ljóst að ég hef ekki notið trausts,“ segir Finnbogi Baldvinsson fyrrverandi forstjóri Icelandic Group í viðtali við Viðskiptablaðið. Það er tvennt sem hann leggur þeirri niðurstöðu til grundvallar. Annað atriðið snýr að ákvörðun stjórnar um ráðningu starfsmanns inn í fyrirtækið án hans aðkomu. Hitt snýr að stefnumótun fyrirtækisins til langs tíma sem hann hefur ekki verið þátttakandi í. Fulltrúar eigandans hafi ekki sest niður með forstjóranum til að útfæra hugmyndir um framtíðarrekstur. Þær hugmyndir séu óljósar.

„Stjórnarformanni Icelandic Group er falið af stjórninni að gera ráðgjafarsamning við stjórnarmann Icelandic Group, Steinþór Baldursson. Þegar ég spurði hvað hann ætti að gera er mér tjáð að hann ætti að sjá um fjármál. Ég sagði að við hefðum fjármálastjóra og þegar ég spurði hvert væri þá hlutverk Steinþórs fékk ég svarið: Hann nýtur trausts eigandans, en ég tel það ekki hlutverk eiganda að ráða starfsfólk fyrir mig inn í fyrirtækið,“ segir Finnbogi.

Hann segir að þetta snúist ekki um hvort hann treysti Steinþóri Baldurssyni, þetta snúist um vinnubrögð sem séu viðhöfð við ráðningar starfsfólks í fyrirtækið. „Það er þá eðlilegt að menn noti þau vinnubrögð og ráði það fólk sem það treystir og hefur trú á að geti fylgt fyrirtækinu áfram.“

Ýtarlegt viðtal birtist við Finnboga Baldvinsson í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir tölublöð.