Bankaráð Landsbankans og Steinþór Pálsson, bankastjóri, hafa komist að samkomulagi um að hann láti af störfum hjá bankanum, en Steinþór hefur verið bankastjóri frá 1. júní 2010.

Hreiðar Bjarnason framkvæmdastjóri Fjármála og staðgengill bankastjóra hefur tekið við stjórn bankans. Staða bankastjóra verður auglýst svo fljótt sem verða má. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um þá hefur Steinþór viðurkennt að líklegast hafi bankinn gert mistök varðandi söluna á hlut bankans í Borgun og gleymt að spyrja út í eignarhlut félagsins í Visa Europe sem skilaði félaginu um 9 milljörðum króna þegar var seldur. Landsbankinn fékk um 2,2 milljarða fyrir hlut sinn í félaginu.

„Ég hef verið í Landsbankanum í sex og hálft viðburðaríkt ár. Gríðarlega mikið hefur áunnist á þessum árum við að endurreisa fjárhag heimila og fyrirtækja. Landsbankinn hefur tekið stakkaskiptum á þessu tíma og ég skil sáttur við mín störf. Fjárhagsstaða bankans er mjög traust og markaðshlutdeild bankans hefur vaxið. Ég kveð samstarfsfólk mitt með hlýjum hug og baráttukveðjum til framtíðar,“ er haft eftir Steinþóri í fréttatilkynningunni.