Starfsmenn Landsbankans munu eignast allt að 2% hlut í bankanum ef hið svokallaða skilyrta skuldabréf, sem gefið verður út til gamla bankans, verður 92 milljarða virði.

„Í samningnum sem var gerður árið 2009 sagði að gamli bankinn skyldi láta sinn hluta renna renna í tilteknum hlutföllum til íslenska ríkisins og starfsmanna, miðað við verðmæti skilyrta bréfsins,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans í viðtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir hins vegar margt eftir að skýrast. „Þetta er á teikniborðinu. Hugsunin árið 2009 var einföld. Gamli bankinn vildi hvatakerfi, ríkið sagði þá að allir starfsmenn ættu að fá hlutabréf. Gamli bankinn vildi á hinn bóginn að það yrði sett upp kerfi sem miðaði við að ná sem bestum árangri að bæta gæði útlánanna sem þeir töldu í sjónmáli.“

Steinþór segir að það sem eftir standi sé fyrst og fremst tæknileg útfærsla . Nú þurfi að finna lausn og framkvæma hana. „Hér í bankanum er okkur umhugað um ímyndina og orðsporið og þess vegna viljum við vanda mjög til verka. Mikil óvissa er um hver raunveruleg verðmæti verða sem starfsmenn muni fá þegar upp verður staðið, hvenær verða hlutabréfin markaðsvara og hvert verður verðmæti þeirra þá.“

Lesa má ítarlegt viðtal við Steinþór í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.