Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir að nægur tími sé til stefnu til þess að breyta ákvörðuninni um nýjar höfuðstöðvar bankans velji ríkið að gera það, en það á 98% eignarhlut í bankanum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Steinþór segir að framkvæmdir við nýjar höfuðstöðvar hefjist í fyrsta lagi eftir eitt og hálft ár. Hann telur hins vegar að fólk hafi skilning á nauðsyn þess og hagræði af því að koma höfuðstöðvum Landsbankans undir eitt þak. Lóðin og staðsetningin fari hins vegar mest fyrir brjóstið á fólki.

Hann segir að bankinn hafi áður sent Fasteignasýslu ríkisins fyrirspurn um hvort Landsbankinn gæti keypt Tollhúsið við Tryggvagötu. „Tollhúsið er að vísu ekki alveg nógu stórt fyrir okkur, en við vorum að horfa til þess, ef við fengjum húsið, að byggja við það.“ Hins vegar hafi hann fengið þau svör að húsið yrði áfram notað fyrir Tollstjóraembættið og þannig hafi þeirri umræðu lokið.