Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, kveðst ágætlega sáttur við uppgjör síðasta árs. Árangur hafi náðst í að draga úr áhættu í rekstri bankans. „Við settum okkur metnaðarfull markmið í byrjun árs 2012. Það gekk nánast allt eftir. Varðandi reksturinn þá erum við sérstaklega ánægð með síðasta ársfjórðung árið 2012 sem var mjög góður. Þar féll margt okkur í vil,“ segir hann í viðtali við Viðskiptablaðið.

Spurður hvort það sé eitthvað sem hann sé óánægður með nefnir Steinþór kostnaðinn sem hefur hækkað. „Hluti af hækkunum tengist auknum álögum og hagræðingaraðgerðum. Það kostar að fara í viðamiklar aðgerðir eins og við höfum gert. Við vonumst til þess að uppskera á þessu ári.“

Hann segir að tekið hafi verið á ýmsu í rekstrinum og skipulagi hafi verið breytt. „Við þurfum þó að gera fleiri breytingar. Til dæmis er upplýsingatækni mjög dýr og það þarf að leita leiða til að endurnýja tækniumhverfið. Þar eru stóru liðirnir. Að auki hefur ýmis sérfræðikostnaður sem tengist verkefnum vegna hrunsins verið mjög hár,“ segir Steinþór og bætir því við að opinber gjöld hafi einnig hækkað gríðarlega, til að mynda skattar á laun.

Ítarlegt viðtal við Steinþór er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.