Ljóst er að ýmislegt hefði mátt fara í betur í fjárfestingum. Það þarf ekki að vera flókið að fara fram af ábyrgð,setja sér ramma og aga sjálfan sig. Þetta sagði Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, á fundi bankans um ábyrgar fjárfestingar.

Landsbankinn hefur sett stefnu um ábyrgar fjárfestingar sem verður innleidd á næstunni. Steinþór segir þetta þó ekki þýða að bankinn ætli að fjárfesta grimmt í fyrirtækjum hægri vinstri. Þetta sé þó umgjörð sem bankinn vilji vinna eftir.

Á fundinum sagði Steinþór að það væri ekki þannig að bankinn ætti inni mikið í fullt af fyrirtækjum. Þetta væru aðallega fyrirtæki sem bankinn hefði eignast vegna innheimtu eða til að gæta hagsmuna sinna. Þessar eignir eigi síðan að selja.