Landsbankinn er ekki á leiðinni í þrot, segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Lansdbankans í samtali við fréttastofu RÚV. Bankinn fór fram á lengri tíma til endurgreiðslu á skuldabréfi og samkvæmt frétt á vef breska blaðsins Guardian var það vegna þess bankinn gæti annars ekki staðið við greiðslur af bréfinu og gæti orðið gjaldþrota.

Af þessum sökum var óskað eftir því á fundi í London í gær með fulltrúum Landsbankans, slitastjórn gamla bankans og fulltrúum forgangskröfuhafa, þ.e. frá stjórnvöldum í Bretlandi og Hollandi, auk fulltrúa Seðlabanka Íslands. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, óskaði eftir því í sumar að semja á ný um afborgarnir af skuldum bankans. Þetta er fyrsti fundur fulltrúa breskra og hollenskra stjórnvalda síðan niðurstaða fékkst í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum í janúar. VB.is greindi frá þessu í gær.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir í samtali við RÚV að það sé ekki rétt að bankinn geti orðið gjaldþrota. Staða bankans sé til skamms tíma litið góð, en vegna óvissu til lengri tíma hafi verið óskað eftir að lengja lánstímann. Fundað var með slitastjórn LBI, sem er gamli Landsbankinn, og fulltrúum stærstu kröfuhafa bankans, og að sögn Steinþórs gekk fundurinn vel. Það sé ósk Landsbankans að lengja í lánum eða endurfjármagna fyrir árið 2016.

Hann segir að bankinn hafi greitt 73 milljarða af láninu í fyrra og hafi tök á að greiða annað eins nú. Gjaldeyrishöft Seðlabankans hægi á útgreiðslu og því væri hægari endurgreiðsla léttari fyrir íslenskt þjóðarbú.