Hæstiréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms í máli LBI hf. (gamla Landsbankans) gegn Steinþóri Gunnarssyni, fyrrverandi forstöðumanns verðbréfamiðlunar Landsbankans og var Steinþór sýknaður af kröfum bankans.

LBI vildi fá rift kaupaukagreiðslum sem Steinþór hafði fengið sumarið og haustið 2008, samtals að fjárhæð 47,3 milljónir króna. Í dómi Hæstaréttar segir að ekki verði talið að Steinþór hafi verið nákominn LBI í skilningi 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti og var því kröfu um riftun hafnað á grundvelli 1. mgr. 133. gr. sömu laga. Þá þótti ósannað að gjafatilgangur hefði búið að baki greiðslunum og var riftun hafnað á þeim grundvelli.

LBI var gert að greiða málskostnað Steinþórs fyrir Hæstarétti að fjárhæð 800.000 krónur.