Steinþóri Gunnarssyni, fyrrverandi forstöðumanni verðbréfamiðlunar gamla Landsbankans, ber ekki að endurgreiða slitastjórn bankans kaupaukagreiðslur sem hann fékk árið 2008. Slitastjórn bankans stefndi Steinþóri og vildi fá 47,3 milljónir króna endurgreiddar vegna kaupaukagreiðslna sem hann fékk á tímabilinu 1. júní til 1. október það ár.

Samkvæmt 133. grein laga um gjaldþrotaskipti frá 1991 verður greiðslu launa og annars endurgjalds einungis rift teljist viðtakandi nákominn þrotamanni í skilningi þriðju greinar sömu laga. Slitastjórnin hélt því fram fyrir dómi að Steinþór hafi verið nákominn gamla Landsbankanum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þeim málatilbúnaði og féllst heldur ekki á þau rök að bónusgreiðslurnar hefðu verið gjöf í skilningi 131. grein gjaldþrotalaga. Steinþór var því sýknaður af kröfu um riftun ráðstafana og endurgreiðslu.