Steinþór Þórðarson hefur hafið störf hjá Capacent sem ráðgjafi í mannauðsmálum og straumlínustjórnun (LEAN). Steinþór býr yfir víðtækri stjórnunarreynslu af margvíslegum vettvangi, m.a. sem framkvæmdastjóri starfsmannaþjónustu Baugs hf og framkvæmdastjóri mannauðsmála og innri samskipta hjá Alcoa Fjarðaáli. Um þriggja ára skeið starfaði hann í Saudí Arabíu sem framkvæmdastjóri þjálfunar og starfsþróunar í samstarfsverkefni Alcoa og arabíska náma- og málmvinnslufyrirtækisins Ma‘aden. Innleiðing straumlínustjórnunar skipaði mikilvægan sess bæði hjá Fjarðaáli og í arabíska verkefninu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Capacent.

Í störfum sínum síðustu 10 ár hefur Steinþór unnið út frá skýrum áherslum á ferlamiðað skipulag og straumlínustjórnun með sérstaka áherslu á árangursþætti í innleiðingu á öllum sviðum rekstrar, bæði í kjarnaferlum og stoðferlum. Hann hefur einnig haldgóða reynslu af mannauðsstjórnun, samskiptum aðila á vinnumarkaði og gerð kjara- og vinnustaðarsamninga.

Steinþór hefur BA próf í sálfræði frá Háskóla Íslands, kennsluréttindi frá sama skóla og vinnur að lokaverkefni til meistaraprófs í stjórnun og stefnumótun.