Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti  í morgun umhverfisverðlaun atvinnulífsins á umhverfidegi atvinnulífsins sem nú stendur yfir á Hilton Reykjavík Nordica. Steinull hf. á Sauðárkróki er umhverfisfyrirtæki ársins 2015 og uppbygging Orku náttúrunnar á hraðhleðslustöðvum fyrir rafbíla er framtak ársins 2015  á sviði umhverfismála. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Umhverfisfyrirtæki ársins er rótgróið og stundar framleiðslu á vörum sem eru í alþjóðlegri samkeppni. Fyrirtækið nýtir að mestu innlent hráefni til framleiðslunnar sem engin hætta er á að gangi til þurrðar. Öndvert við flesta keppinauta sína erlendis nýtir fyrirtækið einungis innlenda endurnýjanlega raforku til framleiðslunnar og útstreymi gróðurhúsalofttegunda er minna en hjá keppinautunum,“ segir meðal annars í umsögn dómnefndar um Steinull.

Í umsögn dómnefndar um framtak ársins segir að Orka náttúrunnar hafi byggt upp aðstöðu sem gagnist víða og nýtist mörgum. Það hafi tekið þeirri áskorun sem felst í því að ein besta leiðin til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda sé að rafvæða samgöngurnar.

„Fyrirtækið sem hlýtur viðurkenningu fyrir umhverfisframtak ársins hefur að undanförnu byggt upp net hraðhleðslustöðva á Suðvesturlandi frá Borgarnesi til Selfoss og hefur uppi áform um frekari uppbyggingu slíkra stöðva,“ segir í umsögninni.

Dómnefndina skipuðu Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri umhverfismála hjá verkfræðistofunni Eflu, formaður, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Að umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.