Steinunn Birna Ragnarsdóttir hefur verið ráðin óperustjóri Íslensku óperunnar. Hún tekur við af Stefáni Baldurssyni sem gegnt hefur starfi óperustjóra síðastliðin átta ár. Steinunn tekur til starfa síðar í vor, en fimmtán umsækjendur sóttu um stöðuna.

Steinunn Birna hefur starfað sem tónlistarstjóri Hörpu frá árinu 2010. Steinunn er píanóleikari að mennt og hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum, hérlendis og erlendis bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar. Einnig hefur hún komið fram á ýmsum alþjóðlegum tónlistarhátíðum. Þá var Steinunn stofnandi Reykholtshátíðar og listrænn stjórnandi hennar um árabil.

Í samtali við Viðskiptablaðið segist Steinunn hlakka til að takast á við þær áskoranir sem felast í hinu nýja starfi. Íslenska óperan sé búin að njóta mikillar velgengni enda hafi áheyrendahópurinn stækkað við komu óperunnar í Hörpu. Spurð um ástæður þess að hún sótti um starf óperustjóra segir Steinunn að tími hafi verið kominn á nýja áskorun, en hún telur sig koma með gott veganesti úr gamla starfinu. Hún segist munu leggja áherslu á listræn gæði, metnað og fjölbreytni. Þá vill hún sérstaklega ná til barna og auka nýsköpun.