Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður fór í viðtal við CNN í New York nýverið þar sem sérfræðingar veittu ráð um rekstur fatahönnunarfyrirtækis hennar STEiNUNN. Hún segir að þátturinn sé eins konar „business makover" þáttur. Hann verður sýndur í ágúst.

„Í þáttinn kom prófessor frá Columbia Yniversity í New York og gagnrýndi fyrirtæki mitt í klukkutíma. Hún sagði margt áhugavert. Meðal annars að það væri á hreinu að búið væri að byggja upp vörumerkið og að grunnurinn væri kominn i fyrirtækið."

Steinunn segist hafa fengið hálfa glósumöppu af ráðleggingum eftir þáttinn en þegar hún er spurð frekar út í þær svarar hún að bragði. „Ég skal segja þér það seinna og hvort það hafi virkað."

Þegar hún er spurð hvernig það hafi atvikast að hún hafi verið beðin um að koma í þáttinn svarar hún: „Framleiðandi þáttarins býr í Boston og hefur keypt fötin mín þar. Hún hafði því samband við mig út af því."

Ítarlegt viðtal er við Steinunni Sigurðardóttur í Viðskiptablaðinu sem kemur út í kvöld.