Steinunni H. Guðbjartsdóttur, formanni slitastjórnar Glitnis, hafa ekki verið kynntar kröfur Seðlabanka Íslands um afslátt af krónueignum kröfuhafanna. Þetta fullyrðir hún í samtali við Viðskiptablaðið.

Morgunblaðið greindi í morgun frá áætlun Seðlabanka Íslands, sem gengur undir vinnuheitinu Bingó, en samkvæmt þeirr áætlun verða nauðasamningar Kaupþings og Glitnis ekki samþykktir nema það fáist að minnsta kosti 75% niðurskrift á 400 milljarða krónueignum kröfuhafanna. Stærstu eignirnar eru hlutir í Íslandsbanka og Arion banka. Vinnuáætlunin gengur, samkvæmt frétt Morgunblaðsins, undir vinnuheitinu Bingo.

Morgunblaðið sagðist jafnframt hafa heimildir fyrir því að þessum skilaboðum hefði verið komið á framfæri til slitastjórna og fulltrúa kröfuhafa að þetta væru kröfurnar.

„Ég kannast ekki við að okkur hafi verið kynnt þetta – hvorki okkur né okkar kröfuhöfum,“ sagði Steinunn þegar Viðskiptablaðið spurði hana hvenær henni hefði verið kynnt þessi plön.