Athafnakonan Steinunn Jónsdóttir hefur keypt hryssuna Þrift frá Hólum, sem í haust var auglýst til sölu á Hólaskóla ásamt fleiri hryssum. Ætla má að hryssa sem þessi fari ekki undir 20 milljónum króna. Sambærileg hryssa var auglýst fyrir nokkru til sölu á 30 milljónir króna. Steinunn er dóttir Jóns Helga Guðmundssonar, sem löngum hefur verið kenndur við Byko.

Steinunn vildi í samtali við Hestablaðið í dag ekki tjá sig um fyrirætlanir sínar með Þrift en taldi líklegt að annað hrossaræktarbú eignist hlut í henni. Það muni koma fljótlega í ljós. Mest sé um vert að hryssan fari ekki úr landi heldur verði áfram ræktunarhryssa á Íslandi, að hennar sögn.

Steinunn rekur Listasetrið Bæ á Höfðaströnd við Hofsós og hafa þar listamenn og arkitektar aðsetur yfir sumartímann. Hrossarækt hefur þar hins vegar ekki verið viðamikil.

Eins og þekkt er orðið gaf Steinunn ásamt Lilju Pálmadóttur íbúum Hofsós sundlaug um mitt ár 2007. Sundlaugin var tekin í notkun fyrir um tveimur árum.