Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, rukkar þrotabú bankans um 35.500 krónur á tímann eftir því sem fram kemur í frétt á Vísir.is. Fyrir átta tíma vinnudag fara greiðslur til hennar því upp í 284.000 krónur.

Félagi hennar í slitastjórninni, Páll Eiríksson, er með ögn lægra tímakaup eða 29.500 krónur. Frá árinu 2009 hafa þau fengið greiðslur upp á samtals ríflega 850 milljónir króna úr þrotabúinu, þegar greiðslur vegna fulltrúa sem starfa fyrir þau eru meðtaldar.

Skilanefndarmennirnir Árni Tómasson og Heimir Haraldsson, sem hættu störfum um síðustu áramót, fengu samtals um 252 milljónir króna vegna starfa sinna.

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra segir að greiðslurnar séu úr takti við íslenskan veruleika eftir því sem fram kemur í fréttinni. Hann segir vel skiljanlegt að íslenskir kröfuhafar séu óánægðir. Hann segir að fólk verði að hafa í huga að ekki fari neitt út úr ríkissjóði vegna kostnaðar við slit gömlu bankanna.