Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, er hætt við að taka sæti í stjórn eignaumsýslufélagsins sem verður til eftir að nauðasamningar slitabúsins hafa verið kláraðir á næsta ári. Þetta staðfestir Steinunn í samtali við DV.

Fyrir þremur árum var tilkynnt að Steinunn myndi taka sæti í fimm manna stjórn Glitnis eftir nauðsamnings og yrði eini Íslendingurinn í þeim hópi. Fram kemur í DV að nú sé aftur á móti gert ráð fyrir að stjórnin verði aðeins skipuð þremur einstaklingum í stað fimm eins og upphaflega stóð til.

Steinunn segir í samtali við DV að það sé nokkuð síðan hún hafi gert upp við sig að taka ekki sæti í stjórninni. Segist hún telja að nú sé rétti tíminn til að ljúka afskiptum sínum af Glitni og takast á við nýtt hlutverk.