Steinunn Valdís Óskarsdóttir, alþingismaður og fyrrverandi borgarstjóri, hefur sent frá sér yfirlýsingu um framboð í eitt af efstu sætunum í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Í tilkynningunni kemur fram að Steinunn Valdís hefur verið formaður samgöngunefndar undanfarin tvö ár, setið í fjárlaganefnd og félags- og trygginganefnd. Hún hafi að auki verið formaður kvennahreyfingar Samfylkingarinnar.

Þeir sem fram að þessu hafa lýst yfir framboði í eitt af þremur efstu sætunum hjá Samfylkingunni í Reykjavík eru Jóhanna Sigurðardóttir í 1. sætið, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í 2. sætið og Össur Skarphéðinsson í 3. sæti. Í 4. sæti hafa gefið kost á sér þau Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason og Skúli Helgason.