Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi alþingismaður og borgarstjóri í Reykjavík, hefur sagt sig úr stjórn íbúðalánasjóðs. Hún segir að stjórnun sjóðsins sé ekki í samræmi við góða stjórnarhætti.

Í bréfi Steinunnar til Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, þar sem hún tilkynnir um ákvörðun sína, segir Steinunn að stjórn sjóðsins hafi á engan hátt verið stefnumarkandi í stórum málum sem snerta framtíð Íbúðalánasjóðs. Þá hafi verið teknar ákvarðanir um starfsemi sjóðsins án aðkomu stjórnar.

Á sama tíma og stórar ákvarðanir um Íbúðalánasjóð hafi verið teknar annars staðar en á vettvangi stjórnar, þá hvíli mikil ábyrgð á stjórnarmönnum sjóðsins, að sögn Steinunnar.

Félags- og húsnæðismálaráðherra mun skipa nýjan einstakling í stjórnina í stað Steinunnar eins fljótt og auðið er.