Stekkur fjárfestingarfélag hefur keypt 35% hlut í Límtré Vírneti. Fyrir átti Stekkur 45% hlut í félaginu og nemur eignarhlutur Stekks því 80% eftir viðskiptin. Seljandi er Bingo ehf. sem með sölunni hefur selt alla hluti sína í félaginu. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Límtré Vírnet er íslenskt iðnfyrirtæki sem framleiðir og selur vörur fyrir íslenskan byggingariðnað. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á stál- og álklæðningum, límtré og yleiningum úr íslenskri steinull. Starfsemin er rekin á þremur stöðum á landinu. Höfuðstöðvar eru í Reykjavík en framleiðslu- og sölustöðvar í Borgarnesi og á Flúðum.

Rekstrartekjur Límtrés Vírnets námu tæpum 3 milljörðum króna árið 2020, samanborið við 2,9 milljarða árið 2019. Meðalfjöldi stöðugilda fækkaði úr 101 í 87 á milli áranna 2020 og 2019. Eignir iðnfyrirtækisins voru rétt um 3 milljarðar, eigið fé 735 milljónir og skuldir 2,3 milljarðar í árslok 2020.

Stekkur fjárfestingarfélag, sem er í eigu Kristins Aðalsteinssonar, er einnig ráðandi hluthafi Securitas og fer með 56% hlut samkvæmt síðasta ársreikningi.

Guðlaug Kristbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdarstjóri Stekks og stjórnarformaður Límtré Vírnets:

„Við höfum óbilandi trú á fyrirtækinu sem hefur náð góðum árangri á undanförnum árum. Það eru spennandi tímar framundan og teljum við að eftirspurn eftir umhverfisvænni íslenskri framleiðslu Límtré Vírnets muni halda áfram að vaxa. Reynsla viðskiptavina okkar er góð og sífellt fleiri velja okkar íslenska byggingarefni, enda gæðin óumdeild og þjónustan til fyrirmyndar. Við hlökkum mikið til að stýra félaginu inn í framtíðina, halda áfram að þróa nýjar lausnir og vaxa á því framkvæmdaskeiði sem er framundan.“

Hjörleifur Jakobsson, eigandi og stjórnarformaður Bingo:

„Við höfum verið hluthafar í Límtré Vírneti í rúm 11 ár og allt hefur sinn tíma. Hugur okkar hjóna stendur nú til þess að einbeita okkur að færri kjarnaverkefnum. Þetta hefur verið stórskemmtilegt verkefni þar sem fyrstu árin fóru í að ná utan um rekstur félagsins en síðan tók við stöðug uppbygging með breiðara vöruframboði sem leitt hefur til aukinnar veltu og bættrar afkomu. Fyrirtækið stendur vel, með frábæran hóp starfsmanna og stjórnenda, sterkan hluthafahóp og er í kjörstöðu til að nýta fjölbreytt tækifæri til sóknar. Ég vil þakka stjórnendum, starfsfólki og stjórn félagsins fyrir einstaklega ánægjulegt samstarf á síðastliðnum 11 árum og óska fyrirtækinu og hluthöfum þess velfarnaðar í frekari þróun Límtré Vírnets.”

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var ráðgjafi í viðskiptunum.