Bréfin í easyJet fóru í fyrsta skipti, í þrjú og hálft ár, yfir fjögur pund en Stelios Haji-Ioannou, stofnandi og stærsti hluthafi félagsins, virðist vera opinn fyrir því að FL Group taki yfir félagið, samkvæmt frétt frá EveningStandard.

?Sem eigandi vörumerkisins, skiptir mig máli hver er leyfishafi, en ég hef ekki gefið mér nægan tíma til að athuga hvort FL Group sé fýsilegur leyfishafi eða ekki" segir Haji-Ioannou.

Hann vonast enn eftir meiri hækkun á hlutabréfaverði fyrirtækisins og segir ?ég er ekki nær að selja, einum né neinum, og trúi því að bréfin eigi eftir að hækka frekar."

easyJet bréfin voru ein af þeim bestu á breskamarkaðinum síðast liðið ár og hafa nánast tvöfaldast í verði.

Á seinni helmingi árs 2004 voru bréfin í 120 pensum, og var það lægsta gildi þeirra í sögu félagsins, en má þar um kenna tveimur tilkynningum um mikið tap.

Ráðgjafafyrirtækið Goldman, sem sögur segja að easyJet hafi ráðið til þess að verjast óvinveittri yfirtöku íslendinganna, tók við starfi Credit Suisse, en fyrir ári síðan tóku þeir við af UBS ráðgjafafyrirtækinu, en það hafði átt í löngu samstarfi við easyJet og kom bréfunum félagsins á markað árið 2000.

Haji-Ioannou gafst upp á því að reka fyrirtækið fyrir þremur árum, hætti sem forstjóri fyrirtækisins, og fór að einbeita sér að öðrum easy verkefnum sem hafa ekki gengið sem skyldi.

Í fyrra snéri hann aftur til fyrirtækisins og er í stjórn þess.