Bandaríkjastjórn ætla að losa 50 milljón olíutunna úr varaforða ríkisins á markað í von um að ná stjórn á síhækkandi olíuverði og vaxandi verðbólgu, samkvæmt frétt Wall Street Journal . Kína, Indland, Japan, Suður-Kórea og Bretland grípa jafnframt til sömu aðgerða. Olíuverð í Bandaríkjunum hefur ekki verið hærra síðan árið 2014 en samkvæmt gögnum frá orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur verð á bensíni hækkað um 61% á síðastliðnu ári.

Síhækkandi olíuverð er sagt vera einn af megin áhrifavöldum verðbólgu í Bandaríkjunum en verðbólgan vestanhafs hefur verið þrálátari en búist var við og er nú 6,2%.

Olíuverð hefur lækkað um ríflega 9% á undanförnum vikum í kjölfar þess að Bandaríkin hóf að vinna að aðgerðum til að sporna gegn hækkandi olíuverði. Verð á svokallaðri WTI-olíu var komið upp í 84,65 dali á tunnu 26. október síðastliðinn en hefur lækkað nokkuð og er verð á olíutunnu 76,64 dalir í dag.

Í tilkynningu frá orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að framboð olíu hafi ekki haldið í við eftirspurn, sem leitt hafi til hækkana á olíuverði.