Verðhrun varð á hlutabréfum í Taílandi í morgun í kjölfar þess að seðlabanki landsins tilkynnti um aðgerðir sem eiga að draga úr frjálsu flæði fjármagns til landsins og koma þar með  í veg fyrir áframhaldandi styrkingu bahtsins. Aðalhlutabréfavísitala landsins féll um meira en 13% og var lokað fyrir viðskipti í kauphöllinni í hálftíma til þess að þrýsta á seðlabankann um að endurskoða fyrirhugaðar aðgerðir. Hlutabréf í Taílandi hafa ekki lækkað meira í verði frá árinu 1997 í aðdraganda hinnar svokölluðu fjármálakreppu í Austur-Asíu. Flótti erlendra fjárfesta frá Taílandi markaði upphafið af þeirri kreppu.

Taílenska bahtið hefur styrkt sig um 17% gagnvart Bandaríkjadali á þessu ári og hefur ekki verið sterkari í níu ár. Taílenski seðlabankinn hefur verið undir miklum þrýstingi frá stórum útflutningsfyrirtækjum um að grípa til aðgerða til þess að stemma stigu við hækkunum á genginu. Aðgerðir seðlabankans felast í því að þriðjungur að öllu því erlenda fjármagni sem streymir inn í landið og er ekki notað til beinnar fjárfestingar í þjónustu eða iðnaði eða flokkast undir vaxtagreiðslur vegna fjárfestinga erlendis verður að geyma í eitt ár í fjármálstofnunum landsins. Þeir sem lúta ekki þessum reglum þurfa að greiða sektir. Aðgerðirnar urðu til þess að bahtið féll um 2% gegn Bandaríkjadollara.

Þrátt fyrir ótryggt ástand í stjórnmálum Taílands undanfarin misseri og valdarán hersins í september hafa erlendir fjárfestar keypt hluta- og skuldabréf í miklu mæli á þessu ári. Á þessum ársfjórðungi hafa erlendir fjárfestar fjárfest fyrir um tæpar sex hundruð milljónir Bandaríkjadala meira en þeir hafa selt á hlutabréfamörkuðum. Afleiðingar þessa hafa meðal annars verið að enginn gjaldmiðill í Asíu hefur styrkst jafn mikið gegn Bandaríkjadollar en taílenska bahtið.