Mitt hlutverk hjá Flow verður að bæði fylgja eftir og þróa betur viðskiptaáætlanir fyrirtækisins, það er búa til peningana. Við erum að undirbúa vörurnar fyrir sölu, í samvinnu við fyrirtæki, til að kenna þeim að hindra að fólk brenni út og upplifi kulnun í starfi,“ segir Kristín Hrefna Halldórsdóttir, nýr framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá nýsköpunarfyrirtækinu Flow.

„Fyrirtækið sérhæfir sig í gerð hugleiðsluhugbúnaðar en stofnandinn, Tristan Gribbin, hefur búið hér á landi í meira en tvo áratugi og kennt hugleiðslu. Fyrsta varan var hugbúnaður inn í Occulus, sýndarveruleikagleraugu Facebook, og síðan verður fljótlega hægt að kaupa í bæði App og Play store vefverslununum hugbúnað í síma sem hjálpar fólki að hugleiða sjálft og fylgjast með líkamlegum áhrifum þess í gegnum snjallúr og annað. Þetta er gott fyrir fólk sem er að glíma við stress til að róa hugann og auka gleðina.“

Kristín Hrefna kemur til Flow úr gagnagreiningu hjá Valitor en þar áður starfaði hún í fimm ár í viðskiptaþróunarteymi Meniga. „Ég var mest að vinna með gagnavörur Meniga, þar sem stór gagnasett og ópersónulegar tölur, sem leyfa manni að sjá hvert stefnir, heillaði mig. Þar var ég í markaðsgreiningu sem leyfði fyrirtækjum að skoða stöðu sína meðal viðskiptavina, sem þau hefðu annars ekki áttað sig á að væru í þeirra markhópi,“ segir Kristín Hrefna sem lærði stjórnmálafræði í HÍ.

„Í henni er auðvitað heilmikil aðferðafræði, svo þar kemur gagnaáhuginn, en svo lærði ég heilmikið af því að vinna hjá nýsköpunarfyrirtæki eins og Meniga. Ég byrjaði ung að hafa áhuga á stjórnmálum sem leiddi mig í ungliðastarf og sveitarstjórnarpólitík, því ég vildi hafa áhrif til góðs. Ég held ég muni alltaf hafa áhuga á því en núna einbeiti ég mér að hjálpa fólki og fyrirtækjum að taka betri ákvarðanir um vinnustaðamenningu, líkt og hjá Meniga sem hjálpar fólki að taka betri fjárhagslegar ákvarðanir. Ég saknaði þess að vera í nýsköpunarheiminum svo núna finnst mér ég vera svolítið komin aftur heim.“

Kristín Hrefna á tvö börn á aldrinum sjö og níu ára sem auðvitað taka stóran hluta af hennar frítíma. „Svo hef ég einskæran áhuga á handstöðum, finnst það virkilega skemmtilegt, og reyni að vera sem mest á höndum þegar ég er ekki í vinnunni, auk þess sem ég lærði hugleiðslu fyrir nokkrum árum og finnst spennandi nú að sjá samþættingu hennar við tæknina,“ segir Kristín Hrefna.

„Ég er að æfa hjá Primal Iceland, sem byggir á þeirri hugmyndafræði að lengja hreyfiferla líkamans og teygja á þeim vöðvum sem eru í allt of mikilli kyrrstöðu í nútíma vinnuumhverfi. Ætli ég geti ekki í dag staðið á höndum í 30 sekúndur úti á miðju gólfi án þess að hreyfa mig, en svo get ég staðið lengur þannig upp við vegg.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .