Vísisjóðirnir Frumtak I slhf. og Frumtak II slhf., í rekstri Frumtak Ventures ehf., skiluðu samanlögðum hagnaði upp á 2,2 milljarða fyrir árið 2020. Þetta kemur fram í ársreikningum Frumtakssjóðanna fyrir síðasta ár.

Hagnaður af rekstri Frumtak I á síðasta ári nam tæplega 1,2 milljörðum á síðasta ári. Hagnaður af sölu eigna var 984 milljónir en sjóðurinn seldi alla hluti sína í Controlant og MainManager á árinu sem leið. Þá nam hagnaður Frumtak II á árinu rúmum 1 milljarð og má hagnaðinn að mestu leyti rekja til mikilla gangvirðisbreytinga. Til samanburðar var hagnaður sjóðanna 79 milljónir á síðasta ári.

Í lok árs voru eignir Frumtaks I um fjórir milljarðar sem að er 40% aukning á milli ára og eignir Frumtaks II fyrir sama tímabil var 6,3 milljarðar sem er 26% aukning.

Markmið sjóðanna er að fjárfesta í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem eru líkleg til vaxtar og útrásar, og þar með verðmætaaukningar. Meðal fyrirtækja sem að sjóðirnir hafa fjárfest í má nefna Sidekick, Meniga, Arctic Trucks, Tulipop og Data Dwell, auk annarra fyrirtækja og áðurnefndra Controlant og MainManager. Útgönguáætlun Frumtaks I gerir ráð fyri því að selja allar eignir fyrir árslok 2021 og slíta félaginu.

Stærsti eigandi Frumtak I er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins með 36,97% hlut. Þá á Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins 11,09 hlut %, Lífeyrissjóður verzlunarmanna á 9,86% og Gildi Lífeyrissjóður á 8,63%. Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki eiga öll sitthvorn 7,39% hlut.

Stærstu eigendur Frumtak II eru Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi lífeyrissjóður sem eiga sitthvorn 19,9% hlutinn. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Birta lífeyrissjóður og Stapi lífeyrissjóður eiga öll sitthvorn 10,2% hlutinn. Þá á Landsbankinn 7,4% hlut og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda á 6,1% hlut.