Íslensk fyrirtæki hafa farið í gegnum mikla fjárhagslega endurskipulagningu frá bankahruni sem hefur styrkt eigið fé þeirra. Árið 2013 var hlutafé og annað eigið fé fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja rúm 31% af heildarfjárskuldbindingum sem er hæsta hlutfall sem sést hefur í fjármálareikningum á síðustu tíu árum. Fjárhagslegur styrkur íslenskra fyrirtækja hefur þannig aukist mikið á síðustu árum. Engu að síður einkennist íslenskt atvinnulíf enn af mikilli skuldsetningu í samanburði við önnur ríki. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Hagstofunnar um kerfi fjármálareikninga fyrir Ísland á árunum 2003-2013.

Taka ber fram að í umfjölluninni hér er eingöngu verið að tala um fjáreignir og -skuldbindingar og því eru ýmsir fastafjármunir, fasteignir, vélbúnaður og annað slíkt ekki talið með

Umsvif í íslensku hagkerfi hafa verið mikil og tekið stakkaskiptum frá upphafsári fjármálareikninganna 2003. Ef litið er á heildarfjáreignir innlendra efnahagsgeira má sjá að þær hafa vaxið mikið síðustu 10 ár og stóðu þær í ríflega 24.148 milljörðum króna í árslok 2013 eða 1.289% af vergri landsframleiðslu (VLF). Á sama tíma hafa fjárskuldbindingar aukist hratt og námu þær 31.719 milljörðum króna í árslok 2013 eða um 1,694% af VLF. Af fjárskuldbindingum innlendra efnahagsgeira telja fjárskuldbindingar fjármálafyrirtækja í slitameðferð hæst, eða um 9.705 milljarðar króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu frá 30. október 2014.