„Hækkun viðskiptavegins meðalgengis krónunnar án nokkurra inngripa Seðlabanka á gjaldeyrismarkaði frá síðasta peningastefnufundi eru rök fyrir vaxtalækkun núm," segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

"Í ljósi ytra umhverfis sem einkennist af háu áhættuálagi á skuldabréf fjölda ríkissjóða og áframhaldandi óvissu um aðgengi Íslands að erlendum fjármálamörkuðum, ber gengisþróunin vitni um virkni gjaldeyrishaftanna og hagstæða þróun viðskiptajafnaðar," segir í yfirlýsingunn.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka í 7,5%, hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum í 8,75%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga í 9,0% og daglánavextir í 10,5%.

„Verðbólga jókst aftur í febrúar, eftir að hafa hjaðnað í desember og janúar, og mældist 7,3%, eða 5,9% ef áhrif hærri neysluskatta eru frátalin. Aukin verðbólga var í meginatriðum fyrirséð og breytir ekki í grundvallaratriðum spánni sem Seðlabankinn birti í janúar. Gert er ráð fyrir að verðbólga aukist einnig í mars vegna óhagstæðra grunnáhrifa, en að undirliggjandi verðbólga hjaðni eigi að síður að markmiðinu seint á árinu.

Hátt skuldatryggingarálag og óhagstæðar horfur um lánshæfismat ríkissjóðs, er tengjast óvissu um aðgang Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum, eru rök fyrir tiltölulega varfærnum breytingum, í ljósi hugsanlegra neikvæðra áhrifa á gengi krónunnar í framtíðinni. Tafir á lausn deilunnar um bætur vegna innstæðna í erlendum útibúum Landsbankans leiddu til lækkunar lánshæfismats eins hinna alþjóðlegu lánshæfisfyrirtækja og tefja enn aðra endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fjármögnun tengda henni. Að því gefnu að gjaldeyrishöftin haldi mun töfin ekki hafa umtalsverð skammtímaáhrif á gengi krónunnar. Hins vegar væri áhættusamt að afnema gjaldeyrishöftin eða lækka vexti í stórum skrefum á meðan lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndum fást ekki, eða aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum á viðunandi kjörum er ekki greiður.

Haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds að vera áfram til staðar. Svigrúm peningastefnunefndarinnar til vaxtalækkunar verður þó takmarkað meðan veruleg óvissa ríkir um aðgengi Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Eins og ávallt er nefndin reiðubúin til að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið," segir í yfirlýsingu Peningastefnunefndar.