*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Innlent 24. júní 2020 20:20

Sterku sósurnar einhvers konar fíkn

Smári´s Volcano Sauce framleiðir sósu úr sterkasta pipar í heimi sem getur farið yfir milljón á Scoville styrkleikaskalanum.

Höskuldur Marselíusarson
Uppistandarinn Eggert Smári Sigurðsson stofnaði Smári´s Volcano Sauce og selur eigin sósur með keim úr Suðurríkjum Bandaríkjanna. „Sjarminn færi af þessu ef þetta væri til í annarri hverri matvöruverslun“.
Gígja Einarsdóttir

Nú er hægt að fá kjúklingavængi með fimm missterkum íslenskum sósum og kryddblöndum frá félaginu Smári´s Volcano Sauce, sem öll bera nöfn íslenskra eldfjalla, í samstarfi við barinn The Secret Cellar. Eggert Smári Sigurðsson, sem stofnað hefur sósugerðarfyrirtækið Smári´s Volcano Sauce, komst á bragðið með sterkar sósur þegar hann bjó í Suðurríkjum Bandaríkjanna og fannst vanta fjölbreytni í þeim hér á landi.

„Ég var með uppistand á ensku í The Secret Cellar og sum kvöldin þegar ég var að leika mér heima að búa til sósur og „hot wings“. Þá tók ég oft afraksturinn með til að gefa hinum grínistunum með mér og upp úr því þróaðist þetta. Einum eiganda staðarins, Davíð Páli Svavarssyni, fannst þetta svakalega gott og skemmtileg hugmynd svo við ákváðum að fara í samstarf um gerð kjúklingavængja á staðnum, auk þess sem ég sel sósurnar mínar þrjár, Katla, Hekla og Askja, þar sem og á netinu,“ segir Eggert Smári.

„Ég hef alltaf fílað mjög sterkan mat sjálfur, en það er nú ekki mikil hefð fyrir því hérna á Íslandi, ég man þegar ég var lítill þótti nánast tómatur vera sterkur. Ég hef þó fengið þokkalegar viðtökur og salan gengið vel á heimasíðunni, en ég get enn gert allt sjálfur, pantað pipar, skorið hann niður og hakkað og blandað. Ég veit það hljómar kannski skrýtið en einhvern veginn finnst mér eins og sjarminn færi af þessu ef þetta væri til í annarri hverri matvöruverslun.“

Úr sterkasta pipar í heimi

Sjálfur kynntist Eggert Smári hefðinni bak við að gera sterkar sósur þegar hann bjó annars vegar í Atlanta í Georgíuríki og síðar í Montgomery í Alabama í Bandaríkjunum.

„Þar kynntist ég svona alvöru heitum sósum en þegar ég kom heim þá virtust mér þær sem seldar eru hér allar bragðast alveg eins, svona meðalsterkar og oftast meira út í asísku hefðina, súrsætar, meðan í Suðurríkjum Bandaríkjanna eru sósurnar sterkari,“ segir Eggert Smári.

„Þetta verður einhvers konar fíkn og þegar ég kom heim byrjaði ég að panta mér pipar og þreifa mig áfram, fyrst með sósunni sem heitir Askja. Hún var sú mildasta hjá mér og er með jalapeno, hunangi, hvítlauki og fleira. Svo komst ég að því að ekki voru allir til í að hún væri það mildasta á boðstólum svo ég hef búið til tvær bragðtegundir fyrir neðan hana, Grímsey og Láki. Sú næsta þar fyrir ofan er Hekla, sem er svona ekta bandarísk sósa, með reykjarkeim og bourbon bragði, hún er í uppáhaldi hjá mér, alveg rótsterk en í henni er habanero pipar og „rawit chilli“. Loks er Katla sterkust, en hún er úr Carolina Reaper-piparnum sem er sá sterkasti í heimi.“ 

Milljónfaldur styrkur

Félag Eggerts Smára er ekki það fyrsta til að framleiða heitar sósur á Íslandi, en í viðtali á Vísi frá árslokum 2018 við William Óðin Lefeve, austfirska framleiðandann á bak við Beru hot sauce telur hann að sósan sín sé um 9.000 Scoville, en það algengur mælikvarði á styrkleika pipars.

„Græn paprika mælist tvö Scoville, en mildasta sósan okkar Láki er í kringum 4 þúsund. Tabasco-sósan sem margir þekkja í litlu flöskunum er um það bil fimm til sex þúsund Scoville og Frank´s Hot Wing sósan er um 40 til 60 þúsund meðan Original sósan þeirra er að nálgast Grímsnes kryddblönduna okkar sem er í kringum 90 þúsund. Svo er Askja í kringum 100 þúsund Scoville, Hekla í kringum 450 þúsund en Katla hefur mælst yfir milljón Scoville,“ segir Eggert Smári.

„Núna virðist allt í einu orðið rosalega töff að geta borðað verulega sterkan mat, kannski vegna vinsælda youtube þáttanna Hot Ones þar sem verið er að taka viðtöl við fólk meðan það borðar sífellt sterkari kjúklingavængi og það verður alltaf erfiðara fyrir viðmælendurna að svara eftir því sem Scoville-skalinn fer að kikka inn.“ 

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Seðlabanki Íslands brýnir fyrir velferðarnefnd þingsins að hrófla lítið í frumvarpi um hlutdeildarlán.
  • Nýfallinn dómur Hæstaréttar hefur vakið furðu meðal lögmanna og endurskoðenda.
  • Fjallað verður um hugbúnaðarfyrirtækið Unimaze sem hefur séð yfir 50% aukningu í miðlun rafrænna reikninga í ár.
  • Viðtal við rekstraraðilia pizzastaðar á Siglufirði sem býður upp á lifandi tónlist.
  • Nýsköpunarfyrirtækið Zymetech fann fyrir mikilli söluaukningu í kjölfar COVID-19.
  • Vigdís Guðjohnsen nýr markaðsstjóri Skeljungs segir frá ferlinum og hugðarefnum sínum.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um rasismann og söguna.
  • Óðinn skrifar um Fríhöfnina sem er ekki fríhöfn.