Íþróttavörurisinn Adidas telur að kostnaður fyrirtækisins muni hækka allverulega á næsta ári vegna sterkari Bandaríkjadollara, en frá þessu greinir fjármálastjórinn Robin Stalker í viðtali við Boersen-Zeitung.

,,Í ljósi óhagstæðrar þróunar á gengismarkaði mun innkaupakostnaður okkar hækka um 500 milljónir evra á næsta ári," sagði Stalker.

,,Veikari evra mun orsaka um það bil helming þessarar kostnaðarhækkunar og aðrar myntir afganginn."

Sterkur dollari er byrði fyrir fjölmörg fyrirtæki á borð við Adidas sem framleiða vörur sínar í Asíu en borga flesta reikninga í Bandaríkjadollurum. Dollarinn heldur áfram að hækka gagnvart evru og öðrum myntum vegna mismunandi peningamálastefnu seðlabanka Bandaríkjanna og Evrópu.