Alls 135 starfsmenn danska flugfélagsins Sterling hefur verið sagt upp störfum að því er fram kemur í fjölmiðlum í Danmörku í dag. Haft er eftir Rulle Grabow Westergaard, upplýsingafulltrúa Sterling, að ástæðuna megi rekja til hás olíuverðs og minni eftirspurnar: Almenningur hugsi sig tvisvar um áður en hann leggist í ferðalög.

Upplýsingafulltrúinn segir að árferði sé með öðrum orðum erfitt í flugrekstri. Fyrir um mánuði var tilkynnt að skera þyrfti niður í rekstri félagsins og fækka starfsmönnum um allt að 100 manns.

Sterling er í eigu íslenska félagsins Northern Travel Holding. Pálmi Haraldsson, einn aðaleigandi félagsins, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í lok júlí að ekki væri von á frekari niðurskurði.

Annað er nú komið á daginn ef marka má danska fjölmiðla í dag.