Áhrif gjaldþrots Sterling hefur engin áhrif á rekstur Iceland Express, segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að Iceland Express hafi að vísu selt áfram ferðir með Sterling en mjög lítið og íslenskir ferðamenn munu ekki lenda í vandræðum vegna þess.

Sterling er sjálfstætt dótturfélag íslenska félagsins Northern Travel Holding sem er í eigu Fons. Að sögn Matthíasar Imsland er Iceland Express í eigu Fons. NTH á  breska flugfélagið Astreus og ferðaskrifstofuna Hekla Travel.

Northern Tavel Holding er í 100% eigu Fons, eignarhaldsfélags þeirra Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar.

„Við vorum með tvær Miðjarðarhafsiglingar núna og í aðra þeirra er flogið áfram með bresku flugfélagi en síðan átti seinni ferðin að vera með Sterling en við breyttum því í morgun og það verður flogið með bresku flugfélagi í staðinn. Einu áhrifin á okkur var vegna þess hóps en við erum sem sagt búin að kippa því í lag,“ segir Matthías.

(Fréttinni var breytt kl. 15.04. Í fyrri frétt var sagt að Iceland Express væri í eigu NTH en að sögn Matthíasar er það ekki rétt heldur sé flugfélagið í eigu Fons.)