Almar Örn Hilmarsson, forstjóri Sterling-flugsamstæðunnar, segir í samtali við finnska blaðið Hufvudstadsbladet í dag að fyrirtækið gæti þurft að endurskoða áætlanir um flug frá Finnlandi vegna aukinnar samkeppni.

Lággjaldaflugfélagið Blue1, sem er í eigu SAS, ákvað nýlega að fljúga til 11 áfangastaða frá Finnlandi og skerast leiðir Blue1 og Sterling á fjórum stöðum. Sterling ákvað í fyrra að hefja flug til 11 áfangastaða frá Helsinki.

Við þurfum að stokka spilin uppá nýtt. Sumir áfangastaðirnir munu ekki virka og það er engin ástæða á fljúga tómum flugvélum," sagði Almar Örn.

Hann segir Sterling vera að skoða möguleika á því að hætta við nokkrar flugleiðir frá Finnlandi. "Við munum taka ákvörðun á næstu dögum," segir Almar Örn.

FL Group samþykkti að kaupa Sterling-samstæðuna, sem varð til við samruna Sterling og Mærsk Air, í fyrra fyrir 15 milljarða króna af eignarhaldsfélaginu Fons.