Flugfélagið Sterling, sem nú er hluti af Northern Travel Holding, hyggst fjölga áfangastöðum sínu upp í 100 á næsta ári. Að sögn Almars Arnars Hilmarssonar, forstjóra Sterling, er áformað að fjölga áfangastöðunum smátt og smátt til vorsins 2008. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Í dag eru þeir á milli 70 og 80 talsins. Er gert ráð fyrir að fjölgunin nái fyrst og fremst til áfangastaða í Evrópu en einnig hefur félagið verið að skoða samvinnu við bandarísk flugfélög um flug yfir Atlantshafið. "Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir slíkt flug að vörumerkið sé þekkt á báðum endum leiðarinnar. Bæði Loftleiðir og Icelandair hafa unnið gríðarlegt markaðsstarf í Bandaríkjunum sem er ekki eitthvað sem menn hrista fram úr erminni á einni nóttu," sagði Almar. Hann benti á að í raun væru tvær leiðir færar til að koma slíku á -- annars vegar að menn finni sér samstarfsaðila þar sem t.d. hefur yfir að ráða öflugu innanlandsflugi og vildi bjóða upp á leiðir til Evrópu. Hin leiðin fellst í því að hefja gríðarlegt markaðsstarf til að byggja upp viðskipti. Almar taldi að í slíkt yrði að fara varlega en taldi að bæði Sterling og Astraeus hefðu getu til að framkvæma slíkt en þau eru bæði innan Northern Travel Holding (NTH).

Jafnframt þessu hefur Sterling tekið að sér að fljúga til Íslands fyrir Iceland Express en bæði félögin eru núna innan NTH. Að sögn Almars er gert ráð fyrir að félagið taki að sér flug á milli Kaupmannahafnar og Egilsstaða og Kaupmannahafnar og Akureyrar. Ákvörðun um samstarfið hafði verið tekin áður en til sameiningar félaganna kom innan NTH. Almar sagði að töluvert hagræði væri í samstarfinu enda Sterling með 15 vélar tiltækar í Kaupmannahöfn. Gert er ráð fyrir að farnar verð tvær ferðir í viku frá Akureyri og Egilsstöðum eða fjórar ferðir alls. Gert er ráð fyrir að flugið hefjist 1. júní og standi fram á haust.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.