Lágfargjaldaflugfélögin Sterling, sem er í eigu Íslendinga, hið norska Norwegian og írska flugfélagið Ryanair lofa öll auknu framboði og samkeppni í Skandinavíu á næstunni og gæti því verið að stefna í svokallað verðstríð á þeim markaði. Þetta kemur fram á vef sænska viðskiptablaðsins Dagens Industri.

Wilhelm Hamilton, framkvæmdastjóri hjá Ryanair, segir við netmiðilinn business.dk að flugfargjöld í Skandinavíu komi til með að stórlækka, og það félag komi best út úr því sem verður með lægstan rekstrarkostnað.

Í samtali við Dagens Industri lofaði Michael O´Leary hjá Ryanair mikill sókn í Skandinavíu meðal annars með því að hefja flug til 13 nýrra áfangastaða frá Stokkhólmi í Svíþjóð. Norwegian áætlar einnig að auka umsvifin í Skandinavíu með áherslu á Danmörku.

Sterling ásamt Ryanair og Norwegian eru þau flugfélög sem eru í mestri sókn í Skandinavíu. Sterling tilkynnti í apríl að það hygðist fjórfalda farþegafjölda sinn til ársins 2010 með ferðum á milli Stokkhólms og Oslo.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Almar Örn Hilmarsson, forstjóri Sterling, að flugfélög hafi horft á það undanfarin ár að verð á flugfargjöldum sé að lækka.

"Í Skandinavíu erum við að keppa við ríkisstyrkt flugfélög. Lágfargjaldaflugfélögin hafa mætt þessum lækkunum með öðrum tekjuliðum eins og að selja fólki hótel eða veitingar um borð."

Hann segir þessa þróun ekkert vera að stoppa því annars ferðist fólk minna. Þetta sé partur af því að afla nýrra viðskiptavina og bjóða þeim fleiri þjónustuliði.

Aðspurður um hvort Sterling fljúgi á íslenska áfangastaði í þessari þróun segir Almar að það sé ekki uppi áætlanir um það, en Sterling hafi verið í samstarfi við Iceland Express um að fljúga á Akureyri og Egilsstaði.

"Það er mikil samkeppni á Íslandi, sérstaklega eftir tilkomu Iceland Express inn á markaðinn," segir Almar.