Ljóst er að væntingar stjórnenda danska lággjaldafélagsins Sterling, sem er í eigu íslenska félagsins Northern Travel Holding, um að ná fram hátt í 20% fækkun starfsmanna án þess að grípa til beinna uppsagna munu ekki standast.

Ástæðan er sú, að því er fram kemur í frétt á vef Berlingske Tidende, að ekki hafa nógu margir starfsmenn Sterling gengið að því að fara fyrr á eftirlaun, minnka við sig vinnuhlutfall eða að þiggja störf hjá samstarfsflugfélagi. Starfsmenn Sterling eru eitt þúsund talsins og til stóð að fækka þeim um 200 en enn sem komið er hafa aðeins um eitt hundrað starfsmenn hætt sjálfviljugir og því stendur nú til að segja upp bæði flugmönnum og flugliðum.

„Ég vildi óska þess að við hefðum getað náð fram nauðsynlegri fækkun algerlega með því að fólk léti sjálfviljugt af störfum og væntanlega munu enn fleiri hætta sjálfir á næstu vikum. Við náum ekki takmarki okkar án þess að grípa til uppsagna en ég vil þó ekki tjá mig um það hversu mörgum þarf að segja upp,“ segir Reza Taleghani, forstjóri Sterling.

Formaður samtaka flugmanna hjá Sterling segir þetta vera vonbrigði en viðurkennir að ekki hafi verið hjá því komist að skera niður kostnað og fækka starfsmönnum hjá Sterling og óraunhæft að ætla að það myndi takast eingöngu með því að fólk hætti af fúsum og frjálsum vilja.