Stjórn Sterna EES ehf., sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Sterna Travel hefur óskað eftir því að Samkeppniseftirlitið kanni hvort Íslandsbanka, Arion banki og Landsbankinn hafi í sameiningu reynt að hamla samkeppni á samgöngumarkaði undanfarna mánuði og ár, meðal annars í dagsferðum á Íslandi, með því að takmarka eða loka alfarið á fyrirgreiðslur til smærri fyrirtækja í ferðaiðnaði.

Sterna Travel var lýst gjaldþrota í byrjun mars á síðasta ári, en gjaldþrotið var svo afturkallað síðar í sama mánuði. Félagið rekur vandræði sín að hluta til þess að Samtök Sveitarfélaga á Austurlandi fengu lögbann á akstur á milli Hafnar og Egilsstaða 18. júlí 2012. Lögbannið var fellt úr gildi þar sem hvorki Hérasdómur né Hæstiréttur féllust á staðfestingu lögbannsins með dómum í maí árið 2013 og svo aftur í nóvember árið 2013.

Lokað á fyrigreiðslu þegar „fyrirtækið var á góðri siglingu“

Í bréfi sem Ágúst Ævar Guðbjörnsson, framkvæmdastjóri félagsins skrifar fyrir hönd stjórnar Sternu ESS, segir að bankar og sjóðir á þeirra vegum hafi fjárfest í stærstu félögum ferðaþjónustunnar, auk þess sem sömu félög skulda stóru viðskiptabönkunum milljarða króna. Því er óskað eftir því að kannað verði hvort rekstur þessara félaga hafi verið með inngripum eða óeðlilegum lánveitingum sem hafi takmarkað eða hamlað heilbrigðri samkeppni á sviði ferðaþjónustunnar á síðustu mánuðum og árum.

„Lokað var á allar lánafyrirgreiðslur til okkar félags Sterna ESS ehf árið 2015 þegar fyrirtækið var á góðri siglingu. Fyrirtækið var þá í óða önn að undirbúa mikla sókn á dagsferðamarkaði, m.a. með því að  hefja rafvæddar samgöngur, þ.á.m. milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Áform þessi voru kunn meðal viðskiptabanka og stórra keppinauta og litið á fyrirhugaða rafvæðingu sem mikilvægt samkeppnisforskot,“ segir í bréfinu. Lokunina megi að hluta rekja til hins ólögmæta lögbanns Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi.

Í bréfinu er fullyrt að „í ljósi góðs árangurs félagsins fram að þeim tímamótum og áforma um markaðssókn teljum við hins vegar líklegt að lokun á fyrirgreiðslu gagnvart félaginu megi einnig rekja til þess að bankar hafi viljað vernda stóra hagsmunaaðila sem hafa verið ríkjandi á markaðnum.“ Reynist það á rökum reyst kunni að vera að hið sama að hafa átt við um fleiri minni félög á þessum árum og til dagsins í dag.

Því vill félagið að Samkeppniseftirlitið kanni hvort viðskiptabankarnir hafi stundað óheimilt samráð, sem birst hafi í takmörkun, eða lokun, á fjármögnun til minni eða smærri félaga samhliða óbreyttri eða aukinni fyrirgreiðslu til stóru félaganna.

„Jafnframt óskum við eftir því að kannað verði hvort viðskiptabankarnir noti sjóði í sinni vörslu til að aðstoða ákveðna aðila en aðra ekki, í þessu tilfelli stóru félögin en ekki þau litlu, og fari þannig framhjá eðlilegri bankastarfsemi í réttarfarsríki. Slík háttsemi væri augljóslega til þess fallin að draga úr samkeppni og þar með styrkja stöðu síðarnefndu félaganna og lánadrottna þeirra, þ.e.a.s. bankanna. Við hjá Sterna ESS ehf teljum einkar mikilvægt að þetta sé skoðað á tímum eins og nú þegar flest félög í þessum rekstri eru í rekstrarvandræðum og undir lánastofnunum komið hvort þau lifi eða ekki,“ segir í bréfinu.

247 milljóna tap árið 2019

Sterna var rekið með 247 milljóna króna tapi árið 2019. Bókfært virði félagsins í bókum eiganda þess, Icelandic Tourist Group ehf. í árslok 2019, nam 630 milljónum króna. Félagið er nú í tímabundnu greiðsluskjóli og er unnið að því að endurskipuleggja og endurfjármagna rekstur fyrirtækisins sem vonast er til að verði lokið þegar feðraþjónustan fer aftur á fullt eftir að COVID-19 kreppunni slotar.