Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins mun ekki lengur taka þátt í kostnaði við árshátíð starfsmanna stjórnarráðsins, en félagið hefur gert það hingað til. Hanna Dóra Hólm Másdóttir, formaður SHSS, segir í samtali við Viðskiptablaðið, að ákvörðun um þetta hafi verið tekin á aðalfundi félagsins í september. Félagið sendi svo félagsmönnum bréf á dögunum þar sem ákvörðunin var kynnt.

„Þegar ég tók við sem formaður árið 2010 fórum við yfir fjármál félagsins og starfsemi. Mér þótti ekki nógu stór hluti útgjaldanna fara í verkefni tengd kjarabaráttu félagsmanna, eins og til dæmis kjarakannanir, og fannst einnig of miklu fé varið í árshátíðina. Félagið er stéttarfélag og ber þess vegna ákveðnar skyldur gagnvart félagsmönnum. Við vildum hins vegar ekki hlaupa að neinu því við viljum auðvitað ekki að árshátíðin leggist af okkar vegna.“

Á ekki að auka kostnað ráðuneytanna

Hún segir stjórn félagsins hafa verið í sambandi við ráðuneytisstjóra vegna málsins. „Við sendum þeim bréf þar sem við röktum málið. Þeir tóku vel í það að skoða hvernig ráðuneytin gætu komið til móts við okkur svo árshátíðin yrði haldin. Það er í skoðun núna, en það ætti að vera hægt án þess að auka kostnað ráðuneytanna. Þau hafa hingað til staðið fyrir boðum fyrir árshátíðina og hægt er að hætta við þau og nota féð frekar í árshátíðina sjálfa.“

Þá segir Hanna Dóra að dómar hafi fallið hjá Mannréttindadómstóli Evrópu sem bendi til þess að þessi ákvörðun hafi verið óumflýjanleg. „Mér hefur, eftir að við tókum þessa ákvörðun, verið bent á að Mannréttindadómstóllinn hefur fellt dóma þar sem félögum er gert skylt að skipta sér upp í fagfélög annars vegar og kjarafélög hins vegar ef þau vilja styrkja atburði eins og árshátíðir. Með öðrum orðum þurfa félög eins og FSHH að ákveða hvort þau vilji vera starfsmanna- eða fagfélög eða stéttarfélög. Við viljum að félagið sé stéttarfélag sem berst fyrir bættum hag félagsmanna.“