Ástralski fjárfestirinn Steve Cosser, sem að sögn Morgunblaðsins er annar þeirra sem gert hafa tilboð í útgáfufélagið Árvakur, er nokkuð þekktur af fjölmiðlastarfsemi sinni í Ástralíu og Bretlandi.

Ekki er langt síðan Steve Cosser var í fréttum í kjölfar þess að frægðarparið Kristy Hinze og Jim Clark föluðust eftir húsi Cosser í Sidney í Ástralíu. Uppsett verð mun hafa verið 15 milljónir dala en greint var frá þessu í áströlskum fjölmiðlum í desember síðastliðnum. Hinze er þekkt módel og Jim Clark er annar stofnenda Netscape vafrans. Verðið var talið gott fyrir Cosser sem hafði hætt við að selja húsið árið áður fyrir 13 milljónir dollara.

Steve Cosser  var fyrst þekktur sem útvarpsfréttamaður í Ástralíu en færði sig síðan yfir í rekstur og fjárfestingar í fjölmiðlafyrirtækjum. Hann hagnaðist á áskriftarsjónvarpsstöðinni Channel Seven áður en hann færði sig yfir í aðrar fjárfestingar. Hann var duglegur við að kaupa upp útsendinga- og tíðnileyfi í Ástralíu og hagnaðist ágætlega á því. Hann lenti í hörðum átökum við stjórnvöld á miðjum tíunda áratug síðustu aldar vegna leyfismála og fór í auglýsingaherferð í blöðum gegn Bob Collins, ráðherra fjarskiptamála. Ráðherrann hótaði meiðyrðamálum í framhaldinu.

1989 keypti Cosser ráðandi hlut í TEN Network sem átti 20% hlut í þremur stórum stöðvum. Seljandi var Westfield Capital og kaupverðið var 22 milljónir dala.

Cosser stofnaði fjölmiðlafyrirtækið Unwired Australia og hagnaðist vel á því framan af en félagið hafði metnaðarfull áform á breiðbandsmarkaði í Ástralíu. Hann hvarf frá félaginu 2007 en þá átti hann 5% hlut og sat í stjórn félagsins. Heldur hafði hallað undan félaginu síðan þá en þegar það var skráð á markað í desember 2003 rauk verð bréfa félagsins upp í 90 sent á hlut en var komið niður í 24 sent þegar Cosser yfirgaf félagið. Þá hafði félagið átt í nokkrum lausafjáerfiðleikum að því er kemur fram í vefútgáfu Asia Media. Verðið hækkaði aftur er leið á haustið.

Þegar leitað er á netinu fást ekki upplýsingar um önnur afskipti hans en þau sem tengjast fjölmiðlum.

Aðkoma Cossers að Árvakri er í félagi við Everhard Visser sem er hollenskur fjárgfestir. Þeir ráku eitt sinn saman námufyrirtæki sem þeir hafa nú selt. Morgunblaðið hefur eftir Cosser að Árvakur sé ein margra fjárfestinga sem þeir hafi áhuga á að leggja í á Íslandi.