Steve Jobs, stjórnandi tölvufyrirtækisins Apple, er ekki með krabbamein. Sögusagnir um veikindi hans hafa gengið en eftir að New York Times greindi frá því að Jobs sé laus við krabbamein hækkuðu hlutabréf Apple um 2,6%. Fyrir fjórum árum læknaðist Jobs af krabbameini í briskirtli.

Sögusagnir um að krabbamein hrjáði Jobs á ný komu til vegna þess að hann hefur horast mjög að undanförnu. Hann hefur nú greint stjórn Apple frá því að hann eigi við meltingarvandamál að stríða eftir aðgerðina fyrir nokkrum árum. Hann vonast hins vegar til þess að ná fullri heilsu í kjölfar nýlegrar aðgerðar vegna meltingarvandamálanna.

Bréf Apple lækkuðu í kjölfar vangaveltna um heilsu Jobs þar sem fjárfestar höfðu áhyggjur af að enginn gæti hlaupið í skarð hans þyrfti hann skyndilega að hverfa frá störfum.