Steve Jobs fyrirleit þá sem láta stjórnast af gróðahyggju. Þess háttar fólk var að hans mati kallað til að stýra Apple eftir að honum var sparkað úr forstjórastólnum þar árið 1985. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri ævisögu um stofnanda Apple sem kemur út á mánudag í næstu viku.

Höfundur bókarinnar er Walter Isaacson og vann hann náið með Steve Jobs að ritun hennar. Bókin átti upphaflega að heita iSteve og koma út í mars á næsta ári. Eftir andlát Jobs fyrir hálfum mánuði var ákveðið að flýta útgáfu bókarinnar sem mun bera nafn hans.

Steve Jobs forstjóri Apple á forsíðu The Econiomist
Steve Jobs forstjóri Apple á forsíðu The Econiomist
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna hafa fengið eintak af bókinni, þar á meðal Washington Post, Associated Press og New York TImes, sem birtu samantekt á efni hennar í gærkvöldi. Þeir segja svo virðast sem Jobs hafi opnað sig í bókinni og haldi engu frá lesendum. Fram kemur í umfjöllun fjölmiðla að Jobs hafi ekki reynt að stýra því hvernig Isaacson fjallaði um hann.

Í bókinni kemur meðal annars fram að á unglingsárum hafi hegðun Jobs þótt óvenjuleg, hann gerst grænmetisæta og tekið upp á ýmsum dyntum, svo sem því að stara á annað fólk eins lengi og hann gat. Þá hafi hann ekki verið gefinn fyrir hreinlæti. Tilraunir til að fá hann til að baða sig oftar hafi reynst árangurslitlar.

Eftir að Steve Jobs greindist fyrst með krabbamein í brisi í október árið 2003 neitaði hann að fara í krabbameinsmeðferð í fyrstu og lagði allt traust sitt á neyslu ávaxta, nálastunguaðferðir og aðrar óhefðbundnar leiðir. Þá greindi hann ekki stjórn Apple frá veikindum sínum. Þetta lagðist þungt á fjölskyldu hans og varð úr að Jobs lagðist undir hnífinn þrátt fyrir að hafa reynt að forðast það í lengstu lög í júlí ári síðar.

Barðist gegn Google

Í bókinni mun margoft komið inn á það að Apple og vörur fyrirtækisins voru í forgangi í lífi Jobs. Hann hafi hatast við Android-stýrikerfi Google fyrir farsíma sem hann sagði byggjast á tækni Apple og ætlaði að berjast gegn því fram á síðasta dag. Hann mun hafa fundað með Eri Schmidt, fyrrverandi forstjóra Google, á kaffihúsi í Palo Alto í Kaliforníu í mars í fyrra. Þar hafi hann sakað stjórnendur Google um hugverkaþjófnað og krafist þess að fyrirtækið hætti að nota hugmyndir sem hann sagði komnar frá Apple.

Unni Bítlunum

Þá kemur fram að Bítlarnir hafi verið í uppáhaldi hjá Jobs og hafi hann bundið vonir við að geta selt tónlist þeirra í netverslunni iTunes áður en hann yrði allur. Það varð að veruleika seint á síðasta ári.

Steve Jobs forstjóri Apple kynnir nýja iPad tölvu þann 27. janúar 2010.
Steve Jobs forstjóri Apple kynnir nýja iPad tölvu þann 27. janúar 2010.
© Aðsend mynd (AÐSEND)