Steve Jobs stofnandi Apple segist vera í meðferð vegna hormónaójafnvægis, en muni halda áfram sem yfirmaður fyrirtækisins. Þetta kemur fram í frétt WSJ.

Vangaveltur fóru af stað í fyrra á hlutabréfamarkaði vegna þyngdartaps Jobs. Vangavelturnar fóru á flug þegar Jobs ákvað í fyrri mánuði að vera ekki með sína venjubundnu kynningu á stóru sýningu Apple, Macworld.

Í bréfi til almennings segir Jobs að að nákvæm blóðrannsókn hafi sýnt að hormónaójafnvægi sé að stela af honum próteinum sem hann þurfi til að halda góðri heilsu. Hann segir einnig að lækningin við þessu næringarvandamáli sé tiltölulega einföld og meðferð sé þegar hafin. Hann muni hins vegar verða fram á vor að ná kröftum á ný.

Jobs ætlar að halda áfram að leiða fyrirtækið en segir í bréfinu: „Ég vona að Apple-samfélagið styðji mig í að ná bata á ný og viti að ég mun alltaf setja hag Apple í fyrsta sæti,“ hefur WSJ eftir Steve Jobs.