Steypustöðin MEST, hefur á ný tekið upp nafnið Steypustöðin. Fyrirtækið var áður starfrækt undir því nafni, óslitið í tæpa sex áratugi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Steypustöðinni en þar starfa nú 87 manns á þremur stöðum; í Reykjavík, í Hafnarfirði og á Selfossi.

Í tilkynningunni kemur fram að Steypustöðin mun einbeita sér að sölu á steypu, hellum og múrvörum og ráðgjöf til einstaklinga og fyrirtækja.

„Innan fyrirtækisins hefur byggst upp mikil þekking á verklegum framkvæmdum og  starfsmenn þess hafa í gegnum tíðina komið að þróun margra markverðra lausna í mannvirkjagerð við íslenskar aðstæður,“ segir í tilkynningunni.

Einnig hefur verið teiknað nýtt merki fyrir Steypustöðina sem dregur dám af upprunalegu merki fyrirtækisins. Af því tilefni komu starfsmenn og stærstu viðskiptavinir fyrirtækisins saman í húsnæði þess við Malarhöfða, fylgdust með afhjúpun virtu fyrir sér sýningu á ljósmyndum úr sögu fyrirtækisins.