Steypustöðin og Merkúr hafa sameinað starfsemi sína undir nafninu MEST, segir í sameiginlegri tilkynningu. Áætluð ársvelta nýja fyrirtækisins er rúmir fjórir milljarðar króna.

Þórður Birgir Bogason, forstjóri MEST, segir að með sameiningunni náist fram hagræðing í rekstri sem koma muni viðskiptavinum til góða.

"Með sameiningunni hefur orðið til eitt kraftmesta fyrirtæki landsins á byggingavörumarkaði. Fyrirtækið býður heildarlausnir fyrir byggingaraðila, allt frá grunni að fokheldu húsi. Einnig bjóðum við vinnuvélar og tæki til kaups eða leigu ásamt vönduðum vörum til lóðaframkvæmda," segir Þórður Birgir

Með sameiningunni verður til öflugt fyrirtæki sem sérhæfir sig í sölu á vörum og þjónustu til verktaka og fagaðila í byggingariðnaði og verklegum framkvæmdum, segir í tilkynningunni.

MEST rekur fjórar steypustöðvar, eina helluverksmiðju og eina einingaverksmiðju auk þróunar-, gæða- og rannsóknadeildar. MEST býður blautsteypu, steypu- og múrvörur, forsteyptar einingar og steypumót, rör og brunna, hellur og garðeiningar, byggingavörur, forbeygt styrktarjárn auk ýmissa vinnuvéla og tækja.

Einnig rekur MEST verslun fyrir byggingavörur á Bæjarflöt í Grafarvogi og á Malarhöfða þar sem fyrirhugað er að reisa 2.000 fermetra verslunar- og þjónustuhúsnæði. Hjá MEST starfa 150 manns.