Formaður Eflingar segir að nokkurra mánaða óvissa og átakatímabil gæti beðið ákveði menn að segja upp kjarasamningum. Forystumenn félagsins ráðfæri sig við félagsmenn um málið næstu daga að því er kom fram í fréttum RÚV .

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, segir að stíf fundahöld séu framundan. Þar á meðal ætli menn að fara yfir stöðuna með félagsmönnum. „Það er hinsvegar alveg ljóst að ef samningar fara í sundur þá tekur við mjög erfitt tímabil. Ég dreg engan dul á að þá erum við væntanlega að fara inn í tímabil þar sem gætu liðið mánuðir þar til við næðum niðurstöðu og það gæti sannarlega orðið átakatímabil í framhaldinu,“ segir Sigurður.

„Það er hinsvegar fólkið okkar sem þarf að taka þessar ákvarðanir með okkur og það eru þau samtöl sem við viljum eiga áður en við gefum svör um það hver endanleg niðurstaða verður.“