Reksturinn hefur gengið vonum framar og samhliða aukinni vitundarvakningu um notkun á skýjalausnum hefur fyrirtækið vaxið jafn og þétt. Íslendingar hafa verið svolítið eftir á í þessum tæknimálum undanfarin ár, í raun alveg frá hruni, en fyrir hrun vorum við á meðal þeirra þjóða sem voru í fararbroddi í tækni. Á síðasta ári virðist hins vegar einhver stífla hafa brostið," segir Axel Þór Eysteinsson, sem leiðir Microsoft á Íslandi, og útskýrir að stíflan hafi brostið með þeim hætti að í stærri fyrirtækjum virðist hafa losnað um einhver tilfinningaleg höft um að gögn, upplýsingar og virkni geti ekki verið upp í skýinu. „Hjá Microsoft snýst í dag allt um vinnslu í skýinu og það sem mér finnst hafa gengið best hjá okkur á síðustu tólf mánuðum hefur verið að vekja athygli á hve marga möguleika upplýsingatækni sem byggir á skýjaþjónustu býður upp á."

Hann segir helsta hlutverk Microsoft á Íslandi að þjónusta og styðja við þá aðila sem eru að selja vörur frá Microsoft á Íslandi í dag. „Við sinnum þessum samstarfsaðilum okkar með því að veita þeim bæði aðhald, upplýsingar og menntun sem til þarf til að bjóðað þjónustu í kringum vörur Microsoft með réttum hætti. Við eigum í beinu samstarfi við þessa samstarfsaðila þegar kemur að þjónustu við stærri viðskiptavini, t.d. hið opinbera og bankana," segir Axel og bendir á að viðskiptamódel Microsoft á alþjóðavísu snúist einmitt um þetta samband við samstarfsaðila.

Lykilhlekkur í einföldun á rekstri ríkisins

Axel segir að aukið samstarf milli Microsoft á Íslandi og í Danmörku, frá og með síðasta ári, hafi styrkt starfsemina verulega. „Á síðasta ári varð samstarfið milli Microsoft á Íslandi og í Danmörku meira en áður og felur það í sér að rekstrareiningarnar nýta sama mannafla þvert á landamæri. Við erum því ekki lengur bara með starfsfólk á Íslandi sem einblínir á íslenska markaðinn, heldur erum við komin með breiðara alþjóðlegt teymi sem að vinnur bæði á Íslandi, í Danmörku og á Írlandi, sem hefur beina hagsmuni af því að sinna íslenskum viðskiptavinum vel."

Hann segir stærsta verkefni fyrirtækisins undanfarin misseri hafi falist í að innleiða Microsoft 365 lausnir inn í allar stofnanir á vegum hins opinbera hér á landi. „Það má segja að um sé að ræða þriggja ára vegferð sem enn er í gangi. Þetta er klárlega eitt af stærstu verkefnum sem Microsoft Ísland hefur tekið þátt í. Þegar við fórum af stað í þetta verkefni voru 164 stofnanir sem allar keyptu sínar Office og hugbúnaðarlausnir sjálfar. Það þurfti að sameina allt þetta undir einn hatt, sem er mjög flókið verkefni, til að ná fram samlegðaráhrifum í innkaupum og auknu öryggi," segir Axel og bætir við að umrætt verkefni sé talið sem eitt af lykilatriðunum á bakvið einföldun á rekstri ríkisins.

Skýjalausnir stuðli að snjallari rekstri

Axel segir að framtíðarsýn fyrirtækisins snúist um að byggja ofan á þau verkefni sem ráðist hafi verið í á undanförnum mánuðum. „COVID-19 faraldurinn hraðaði fyrir innleiðingu á skýjalausnum og sýndi fram á mikilvægi þeirra. Nú sjáum við fram á mikinn vöxt hvað varðar notkun á hinum ýmsu skýjaþjónustum. Þessi tæknilega, lagalega og tilfinningalega hindrun tengd skýjaþjónustu hefur að mestu leyti eyðst út á síðustu 12 mánuðum."

Hann segir mikil tækifæri felast í því, bæði fyrir fyrirtækið sem og atvinnulífið í heild, að fara að nýta þessar auðlindir sem er búið að koma fyrir uppi í skýinu. Umræddar lausnir stuðli að hagræði og snjallari rekstri.

„Stór hluti íslenskra fyrirtækja situr á gríðarlegu magni upplýsinga í formi gagna. Með skýjalausnum er hægt að setja þessi gögn í form sem hjálpar til við að taka snjallari og upplýstari ákvarðanir, byggðar á vel tilgreindum upplýsingum. Ef það hefur einhvern tíma verið spennandi að starfa innan upplýsingatæknigeirans, þá er það núna. Það er ekki lengur tæknin sem takmarkar okkur í því hvað við getum gert, heldur er það hugmyndauðgi mannfólksins."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út á dögunum og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .