Fjarskiptafyrirtækið Síminn gerir nú fólki kleift að greiða með snjallsímum og stígur þar með skref inn í fjártækniheiminn. Fyrirtækið hefur, í samstarfi við Advania Mobilepay, þróað nýja greiðslulausn sem ber nafnið Síminn Pay.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir að þau hjá fyrirtækinu telji að tækni- og fjarskiptaheimurinn muni eiga meira erindi í virðiskeðju fjármálanna í framtíðinni. Hann bendir á að hægt sé að spara, gera margt einfaldara og nýta upplýsingar betur í þessu samhengi. Þar telur hann að Síminn geti komið sterkur inn.

Allir landsmenn geta notað nýja hugbúnaðarlausn Símans og er hægt að sækja það endurgjaldslaust í App Store eða Play Store. Með þessu skrefi fetar fyrirtækið í fótspor tæknirisanna Apple og Samsung sem bjóða einnig upp á greiðslulausnir sínar undir sama nafni.

Umsvifamiklir samstarfsaðilar

Meðal fyrstu fyrirtækjanna sem taka þetta skref með Símanum eru meðal annars 10-11, Dunkin‘ Donuts, Te og Kaffi, Lemon, Local, Mosfellsbakarí, Ísbúð Vesturbæjar og Culiacan og stefnir Síminn á að fjölga þeim hratt. Næstu fyrirtæki inn eru Samkaup, Olís og Kaffitár.

„Einhvers staðar þarf að byrja. Í stað þess að bíða og bíða og safna öllum mögulegum samstarfsaðilum, þá var ákveðið að fara bara af stað. Við erum með stórar keðjur eins og 10-11 og minni aðila. Svo eru að koma inn fleiri stórir aðilar á borð við Olís og Samkaup. Við erum að spennt yfir því að fólk fái að venjast þessu,“ segir Orri.

Telur að kortin sjálf muni hverfa að lokum

Þegar Orri er spurður út í það hvort Síminn sé kominn í samkeppni við fjármálastofnanir segir hann: „Við erum ekki endilega að taka risaskref inn í bankaþjónustu – en við teljum að kortin sjálf muni hverfa og fara inn í símann. Við ætlum að vera þátttakendur í þessum heimi,“ bætir hann við.

Hann segir að helsti munurinn á lausn þeirra og annarra greiðslulausna sé sá að Síminn býður upp á lausn þar sem að fólk getur farið með símann sinn inn í búð og borgað fyrir vörur og þjónustu með honum. „Þetta er ekki einhvers konar millifærsla eða þess háttar. Þarna eru kúnni og kaupmaður sem tengja sín á milli.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .