Við könnun Viðskiptablaðsins á íbúðalánamarkaði kvað víða við sama tón; áhyggjur af of mikilli hækkun húsnæðisverðs undanfarin misseri. Til þess að sporna við víxlverkun hækkana á húsnæðisverði og aukinnar lántöku hafa skilyrði fyrir endurfjármögnun í sumum tilvikum verið þrengd. Þannig breytti til dæmis LIVE lánareglum sínum í vor á þann hátt að nú lánar sjóðurinn fyrir allt að 70% af kaupverði við kaup en 70% af fasteignamati við endurfjármögnun.

Fasteignamat er í mörgum tilvikum lægra en markaðsvirði fasteigna. Fyrir breytinguna lánaði sjóðurinn allt að 75% af markaðsvirði við kaup og 75% af verðmati fasteignasala við endurfjármögnun, en verðmatið var að jafnaði tekið niður um 5%. Allt þetta gerði þeim sem keyptu þegar fasteignaverð var lágt kleift að skuldsetja sig meira á hagstæðari vöxtum og nýta „hagnaðinn“ sem fólst í hækkun húsnæðisverðs til að auka ráðstöfunartekjur. Svipaða sögu er að segja af Íslandsbanka.

Bankinn, sem almennt lánar 80% af markaðsvirði við íbúðakaup, lánar nú allt að 70% af verðmati frá löggildum fasteignasala við endurfjármögnun. Þetta hlutfall var lækkað, m.a. í ljósi þeirrar miklu hækkunar sem varð á húsnæðisverði síðastliðinn vetur. Með hækkandi fasteignaverði og lækkandi vöxtum hefur endurfjármögnun verið lokkandi, ýmist til að lækka greiðslubyrði, til að losa um reiðufé og skuldsetja húsnæði enn frekar eða hvort tveggja. Frekari skuldsetning virðist hins vegar vera eitthvað sem bankar og lífeyrissjóðir hafa vaxandi áhyggjur af og því er endurfjármögnun með það að markmiði að auka á skuldir sett nokkuð þröngar skorður.

Þótt nokkuð langt sé um liðið eru menn enn minnugir þess ástands sem skapaðist frá árinu 2004 og varði fram að hruni. Þessar áhyggjur sjást einnig í skýrslu Íbúðalánasjóðs frá því í ágúst þar sem fram kemur að skuldir heimilanna vaxi nú hraðar en árið 2008.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.